FRAMLEIÐSLUFERLIÐ
Leirgerð
Að baki hverri vöru er langt ferli. Að þróa hráan leir í fullunna vöru tekur venjulega um það bil þrjár til fimm vikur, allt eftir árstíð. Hráleirinn er keyptur í þorpi þar sem jarðvegur er mjög leirborinn og fluttur í leirmunamiðstöðina þar sem hann er látinn þorna. Þá er hann mulinn í stórumorteli og sigtaður svo eftir verður fínt duftkennt efni. Næsta skref er að þvo leirinn. Vatni er blandað saman við duftið og látið renna hægt af og aftur er blöndunni þrýst í gegnum sigti. Leirinn er síðan settur í plastpoka og á plasthellu þannig að vatnið sem eftir er rennur út. Að lokum er leirinn hnoðaður og er þá tilbúinn til notkunar.
Varan er mótuð á sparkhjólinu og þegar réttri lögun hefur verið náð er hún látin þorna. Þurrkun fullunnar vöru getur tekið allt að þrjár vikur eftir veðri, en yfir rigningartímabilið (maí-okt) er rakastigið 85-95% flesta daga og þurrkunin getur dregist í langan tíma. Þegar varan er orðin nógu þurr er hún brennd í ofni, svokölluð bisquebrennsla. Í viðarofninum tekur brennslan að minnsta kosti 12 klst. Að lokinni brennslu er varan síðan glerjuð og brennd aftur við mikinn hita. Allt brennslu- og glerjunarferlið getur tekið uppundir eina viku og þá loks erum við með hlut tilbúinn í sölu.
vefnaður
Bómullarræktun lagðist af á tímum borgarstyrjaldar og Ebolu faraldurs eins og flest framleiðsla í landinu. Með tilurð Sweet Salone verkefnisins hefur bómullaræktun litið dagsins ljós á ný og vonast er til að sú ræktun muni skila nægu efni til að anna þeirri framleiðslu. Bómullin er ræktuð í uppsveitum Sierra Leone, hand tínd og síðan spunnin á litlum handsnældum. Rætur og jurtir eru tíndar og þurkaðar til þessa að búa til litarefnin sem bómullin er síðan lögð í. Úr lituninni fer bómullin til höfuðborgarinnar þar sem hún er handofin af Ibrahim Kallon (sjá mynd) og síðast saumuð saman af Foday Thoranka. Sjá myndband hér að neðan. Margar hendur og mikil þolinmæði fara því í gerð hverrar vöru.
bast
Efnið er fengið úr skógi í kringum Brama Town í Sierra Leone eða frá nærliggjandi samfélögum, sem selja það vefurunum. Þeir byrja á að sníða það til, sem þýðir að þeir skera efnið í jafnar lengjur áður en þeir kljúfa það í sundur - fyrst í svera búta og síðan í fínar tágar. Efnið þarf þá að þorna í sólinni í að minnsta kosti 30 mínútur þó að þurrkunin geti tekið allt að tvo eða þrjá daga þegar blautt er. Þegar efnið er orðið nógu þurrt hreinsa vefararnir það og þá geta þeir loksins byrjað að vefa vöruna sína. Hver vara er svo ofin af þorpsbúum Brama Town sem hafa stundað þessa iðju frá blautu barnsbeini. Hver vara tekur langan tíma og mikla natni. Oft hefur verið erfitt að koma hugmyndum hönnuða Hugdettu almennilega í rétt form en með góðri og langri samvinnu hefur það ferli náð að þróast í réttan farveg.